VEÐURHORFUR TIL 18. JÚLÍ

Byggt er á spám
frá ECMWF og GFS frá í morgun og langtímareikningum
Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar frá því á mánudagskvöld.
Byrjum á 10 daga meðalspánni frá ECMWF í háloftunum. Kortið af Brunni Veðurstofunnar spáir hæðarhrygg og áframhaldandi hlýindum, lílega með methita norður yfir Skandinavíu og í áttina til Svalbarða. Eins er hryggur en minni suður af Hvarfi. Þarna á milli er spáð dragi með rót yfir Grænlandi, suðaustur yfir Ísland og í átt til Bretlandseyja. Breytilegt veður, en oft skýjað með úrkomu og fremur svölu veðri, en ekki endilega köldu.
Næst er kort úr spá GFS og sýnir uppsafnaðar úrkomu eins og hún er reiknuð til 8. júlí. Sú spá eiginlega er í takt við hina um breytilega úrkomu. Ekki spáð mikilli, en einhverri í öllum landshlutum. Segir okkur umfram annað að ekki er útlit fyrir einsleitt veður eftir landshlutum næstu 10 daga.
Þriðja kortið er úr langtímareikniverkinu og gildir fyrir vikuna 4. til 11. Júlí og sýnir frávik 2ja m hitans. Reiknað er með að breytingar verði á lofthringrásinni strax eftir helgi, þannig að hæðin öfluga yfir Skandinavíu veikist til muna og færist til Rússlands. Hæðarsvæði suður í hafi eflist. Hér við landi verður SV-átt því meira áberandi og sést í hitafrávikunum sem er spáð jákvæðum yfir Norðaustur- og Austurlandi, en lítið eitt neikvæðum suðvestanlands, í takt við ríkjandi vindátt.
Fjórða spákortið sýnir loftþrýstifrávik vikuna 11. til 18. júlí. Spáð er markvert hærri þrýstingi suður af landinu og yfir Bretlandseyjum, en lágum við Portúgal. Gæti verið vísbending um líkur á áframhaldandi SV-átt. En sé rýnt í líkindi í 50 safnspám fyrir þessa viku, kemur í ljós að líkur á SV-hringrásinni eru þrátt fyrir allt ekki nema 40-50%. Hins vegar 25% líkur háloftlægðardragi við landið með, úrkomu, vindi og hálfgerðu skítviðri meira og minna. Álíka líkur á N eða NV-átt og svölu, jafnvel köldu veðri. Hins vegar eru innan við 10% líkur eru metnar á raunverulegum hlýindum sem ná myndu yfir mest allt landið þessa vikuna 11. til 18. júlí.