HVE MIKIÐ RIGNDI Í VÍKNAFJÖLLUM?

HVE MIKIÐ RIGNDI Í VÍKNAFJÖLLUM?

Engar úrkomumælingar eru gerðar eftir því sem ég best veit við Skjálfanda og því er besta leiðin til að glöggva sig á magninu að skoða úrkomuspárnar.  

Veðurstofan reiknar í fínkvarða spá sinni (Harmonie) uppsafnaða úrkomu fyrir landið.  Einnig í dönsku DMI/IGA spánni.  Báðar sem aðgengilegar voru í hádegnu á föstudag (1. okt)  sýndu yfir 200 mm úrkomu í Víknafjöllum.  Sú danska sem hér fylgir, var þó með ívið meiri uppsöfnun.

Björg er ysti bær í Kaldakinn. Þar féllu fyrstu flóðin og hefur trúlega rignt af mestu ákefð þar fyirr ofan.  Og enn meiri líkast til norða, ofan eyðibyggðanna í Náttfáravíkum. Það er líklega ekki vanáætlað að ofan við bæina í Útkinn hafi úrkoman frá kl. 6 á föstudaga til kl. 6 á sunnudag numið allt að 200-230 mm og hvað mest ofan við ystu bæina.

Þeir sem horfa út eftir Flateyjardal, t.d. af Víkurskarði velkjast ekki í vafa um hve úrkomusamt er á þessu svæði og mikið snjóar á vetrum í ríkjandi NA-áttinni. Er sem jökul að sjá í Víknafjöllunum langt fram eftir sumri alla jafna. 

Frá 1933 til 2005 voru gerðar veðurathuganir fyrir Veðurstofuna á Sandi í Aðaldal. Bærinn er handan fljótsins gegnt Björgum. Friðjón Guðmundsson annaðist þær af mikill kostgæfni lengst af og lengur en nokkur veðurathuganmanna (Veðurlýsingar hans komu út í bók; Um veðráttu í Aðaldal 1931-2000).

Fljótt á litið virðist mesta sólarhringsúrkoma þar hafa orðið 27. júlí 1988 eða 84,5 mm.  Það gildi er ekki svo hátt, en vissulega er mun minni úrkomuákefð á Sandi alla jafna en við fjallsræturnar.  Um þetta leyti sumarið 1988 urðu vatnavextir og skemmdir á Múlaveginum til Ólafsfjaðar (skömmu fyirr göng)  og rann úr Siglufjaðarvegi og eins féllu á hann aurskriður.  Ekki er hins vegar greint frá skriðum í Kinnarfjöllum ofan byggðarinnar.    Seinna þetta sama sumar urðu miklar skriður ofan við Ólafsfjarðarkaupstað samfara gríðarmikilli úrkomu.