HVAÐ SEGJA SPÁR HEIÐHVOLFSVINDA OKKUR UM VEÐUR FRAM EFTIR VETRI?
Kóperníkusarsetrið birti í dag saman mánaðarlegar veðurlagsspár stóru reiknimiðstöðvarnna. Þeirra sjónarhorn á Ísland er reyndar út og suður og fátt er þar hönd á festandi s.s. spá fyrir tíðina nóvember til janúar.
Undanfarnar vikur hafa verið ýmsar bollalengingar uppi þess efnis að framan af vetri kunni meginhringrás norðurhvels að verða hægari en hún er að jafnaði. Öllu heldur að styrkur V-áttarinnar í heiðhvolfinu vaxi hægar og verði skrykkjóttari fram að hámarki hennar um áramót í meðalárferði.
Baksvið af slíkum vangaveltum er reynslan af lofhringrásinni þegar saman fer La-Nina í Kyrrahafinu og austanstæður háloftavindur yfir miðbaugssvæðum. Sú háttbundan sveifla kallast QBO fer frá vestri til austurs og aftur til vestanáttar á um 44 mánuðum.
Útreikningar í veðurlagsspám Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar, Bresku veðurstofunnar og þýsku veðurþjónustunnar benda allar til veikari hringrásar a.m.k. til áramóta. Hvað þýðir það á okkar slóðum? Getur haft í för með sér eitt og annað í veðurlagi, en oftast er minna um djúpar lægðir við landið og/eða brautir þeirra liggja sunnar eða í það minnsta fjarri okkur að jafnaði. Meira verður um kafla háan loftþrýsting, en N- eða NA-áttir geta líka verið ríkjandi.
Lítum á þrjú spákort:
1. Spá Evrópsku reiknImiðstöðvarinnar. Þetta er safnspá með allmörgum ferlum fyrir hnattrænan styrk V-áttarinnar eftir 60°N upp í rúmlega 20 km hæð. Bláa línan er meðaltal allra spákeyrslna. Það liggur að jafnaði nokkru lægra en meðaltalið úr endurgreiningu ERA5. Minni munur er ef horft er á meðalgildi þessa líkans (rauð lína). ECMWF gerir ráð fyrir veikari hringrás meira og minna í allan vetur. Þannig er það raunar sjaldnast.
2. Sams konar spá, en frá Bresku Veðurstofunni, Met Office. Þar er líka gert ráð fyrir veikri hringrás framan af vetri, en hún jafni sig á nái sér á strik nærri miðjum janúar.
3. Að síðustu nýjasta daglega keyrslan úr tveimur samhliða bandarískum veðurlíkönum, líka fyrir V-þáttinn í 10 hPa og út október. Þarna er gert ráð fyrir að hringrásin sé þegar byrjuð að veikjast, en að hún jafni sig aðeins í mánaðarlok. Rétt er að hafa í huga að "bergmál" breytingar þarna uppi nær niður á 7 til 15 dögum.
Nokkur önnur líkön t.d. það franska og kanadíska sýna aðra mynd og fara nærri meðaltalinu. Líkönin eru reyndar misfær í að herma yfir höfuð breytileikann í heiðhvolfinu og skortir stundum betri upplausn auk annars.